VFÍ er fag- og kjarafélag tæknifræðinga og verkfræðinga á Íslandi.

Þeir sem lokið hafa viðurkenndu námi í verkfræði eða tæknifræði geta orðið félagsmenn í VFÍ. Ungfélagaaðild er fyrir nemendur í þessum greinum og greiða þeir ekki félagsgjald.

Reglur um félagsaðild - verkfræðingar

1. grein

Sá sem áhuga hefur á að gerast félagsmaður í VFÍ snýr sér til skrifstofu félagsins og aflar sér þar upplýsinga um kröfur þær, sem félagið gerir til nýrra félagsmanna.
VFÍ skal gera væntanlegum umsækjanda ljóst, að viðkomandi beri sú skylda að veita félaginu hver þau gögn, sem það telur nauðsynleg til staðfestingar á menntun umsækjanda. Sönnunarbyrði þar að lútandi hvílir öll á umsækjanda.

2. grein
Telji viðkomandi sig uppfylla kröfur félagsins til nýrra félaga, fyllir umsækjandi út sérstakt umsóknareyðublað og leggur fram gögn með umsókn sinni. Gögn þessi skulu veita sem gleggstar upplýsingar um þau atriði, sem við eiga sbr. 5. og 6. grein hér á eftir. Frekari gagna kann að verða óskað.

3. grein
Skrifstofan sendir Menntamálanefnd VFÍ til umsagnar allar umsóknir um inngöngu í félagið.

4. grein
Menntamálanefnd leggur hlutlaust mat á umsóknir sem henni berast. Hafi umsækjandi bein eða óbein samskipti við nefndarmenn varðandi umsókn sína meðan á afgreiðslu hennar stendur, fyrirgerir umsækjandi hlutleysi nefndarinnar.

5. grein
Mat Menntamálanefndar VFÍ byggist á kröfum félagsins til menntunar umsækjenda. Nefndin skal mæla með inngöngu umsækjanda í félagið, ef eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:
A. Umsækjandi uppfyllir skilyrði til að fá leyfi ráðherra til að kalla sig verkfræðing sbr. „Mat VFÍ á umsóknum um verkfræðingstitil"

B. Umsækjandi hefur lokið prófgráðu í undirstöðugreinum verkfræðinnar (stærðfræði, eðlisfræði eða efnafræði) eða einhverju af hliðar- eða sérsviðum verkfræðinnar (t.d. tölvunarfræði, jarðeðlisfræði eða lífefnafræði) og uppfyllir að auki þessi skilyrði:

  1. Lokið er BS-prófi eða samsvarandi prófi á viðkomandi fagsviði.
  2. Lokið er með prófgráðu framhaldsnámi á sama fagsviði eða á fagsviði, sem er í nánum tengslum við verkfræðileg viðfangsefni.
  3. Próf eru frá háskóla eða háskólum, sem Menntamálanefnd VFÍ telur færa um að veita fullnægjandi menntun á viðkomandi fagsviði.
  4. Námið uppfyllir kröfur félagsins til lágmarksmenntunar í undirstöðugreinum verkfræðinnar sbr. „Mat VFÍ á umsóknum um verkfræðingstitil".
  5. Heildarlengd náms er sambærileg við þær kröfur, sem félagið gerir náms í verkfræði sbr. „Mat VFÍ á umsóknum um verkfræðingstitil."
  6. Námið er þess eðlis, að umsækjandi hefur eða getur öðlast skilning á störfum og skyldum verkfræðinga og er fær um að taka þátt í faglegum umræðum þeirra.

6. grein
Menntamálanefnd getur einnig mælt með inngöngu umsækjanda með takmörkuðum réttindum í félagið ef eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:

Umsækjandi hefur lokið með prófgráðu minnst 90 eininga námi í verkfræði, þar sem hver eining svarar til einnar viku í fullu námi. Námið hefur verið stundað við háskóla eða tækniháskóla, sem Menntamálanefnd telur færa(n) um að veita fullnægjandi menntun á viðkomandi sérsviði. Prófgráðan skal uppfylla eftirfarandi lágmarkskröfur VFÍ:

Lágmarkskröfur   
a) Undirstöðugreinar verkfræðinnar18e (36 ECTS) 
b)Verkfræðilegar undirstöðugreinar18e (36 ECTS)
c) Verkfræðigreinar36e (72 ECTS)
d)Námsgreinar að frjálsu vali sem talist geta til verkfræðináms18e (36 ECTS)
 Lágmark90e (180 ECTS)

7. grein
Menntamálanefnd VFÍ sendir framkvæmdastjóra félagsins umsögn sína.

8. grein
Ef umsögn Menntamálanefndar er jákvæð og umsækjandi er íslenskur ríkisborgari, ber stjórn að veita honum aðild að VFÍ.  Ef umsögn Menntamálanefndar er jákvæð, en umsækjandi er erlendur ríkisborgari, þarf meirihluti stjórnar að samþykkja inngöngu í félagið.
Ef umsögn Menntamálanefndar er neikvæð, getur stjórn ekki veitt viðkomandi aðild að VFÍ nema í algjörum undantekningartilvikum, eins og ef viðkomandi getur ekki aflað tilskilinna gagna vegna styrjalda eða af stjórnmálalegum ástæðum. Í slíkum tilfellum þarf stjórn að samþykkja inngöngu samhljóða.

9. grein
Framkvæmdastjóri VFÍ tilkynnir umsækjanda hverja afgreiðslu umsóknin hefur hlotið.

10. grein
Félagsmaður sem hlotið hefur inngöngu með takmörkuðum réttindum í VFÍ samkvæmt 6. grein hér að framan, verður fullgildur félagi þegar hann uppfyllir almenn skilyrði um inngöngu í félagið samkvæmt 5. grein hér að framan.

Reglur þessar hlutu staðfestingu aðalfundar VFÍ þann 29. mars 2000.

Reglur um félagsaðild - tæknifræðingar

Leiðbeiningar vegna umsókna um starfsheitið tæknifræðingur

(Ath. unnið er að endurskoðun reglnanna en eftirfarandi var í gildi við sameiningu VFÍ og TFÍ 1.1.2017)

Upplýsingar á skrifstofu: skrifstofa@verktaekni.is

1. grein

Sá, sem óskar leyfis ráðherra til að kalla sig tæknifræðing skv. lögum nr. 8/1996, snýr sér til skrifstofu félagsins eða til Iðnaðarráðuneytisins og aflar sér þar upplýsinga um kröfur þær, sem TFÍ gerir til menntunar tæknifræðinga.
Væntanlegum umsækjanda skal gert ljóst, að viðkomandi beri sú skylda að veita TFÍ hver þau gögn, sem það telur nauðsynleg til staðfestingar á menntun umskæjanda. Sönnunarbyrði þar að lútandi hvílir öll á umsækjanda.

2. grein

Telji viðkomandi sig uppfylla menntunarkröfur TFÍ til tæknifræðingstitils, fyllir umsækjandi út sérstakt umsóknareyðublað og leggur fram gögn með umsókn sinni. Gögn þessi skulu veita sem gleggstar upplýsingar um þau atriði, sem við eiga sbr. 5. grein hér á eftir. Frekari gagna kann að verða óskað.

3. grein

Framkvæmdastjóri félagsins sendir Menntunarnefnd TFÍ til umsagnar allar umsóknir um tæknifræðingstitilinn.

4. grein

Menntunarnefnd leggur hlutlaust mat á umsóknir þær, sem henni berast. Hafi umsækjandi bein eða óbein samskipti við nefndarmenn varðandi umsókn sína meðan á afgreiðslu hennar stendur, fyrirgerir umsækjandi hlutleysi nefndarinnar.

5. grein

Mat menntunarnefndar TFÍ byggist á kröfum félagsins til menntunar umsækjenda.
Menntunarnefnd skal mæla með því við stjórn TFÍ að umsækjandi fái leyfi ráðherra til að kalla sig tæknifræðing ef eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:

Lokið er með prófgráðu námi, sem hefur verið stundað í tæknifræði við menntastofnun sem menntunarnefnd telur færan (færa) um að veita fullnægjandi menntun á viðkomandi sérsviði. Prófgráðan skal að námslengd og samsetningu náms uppfylla lágmarkskröfur TFÍ (hver eining svarar til einnar viku í fulllu námi):

a) Undirstöðugreinar tæknifræðinnar 21e  (42 ECTS)
b) Tæknifræðilegar undirstöðugreinar 20e  (40 ECTS)
c) Tæknifræðigreinar 41e  (82 ECTS)
d) Námsgreinar að frjálsu vali, sem talist geta til tæknifræði náms 25e  (50 ECTS)
Lágmark 107e (214 ECTS)   

6. grein

Menntunarnefnd TFÍ sendir framkvæmdastjóra félagsins umsögn sína.

7. grein

Ef umsögn Menntunarnefndar er jákvæð og umsækjandi er íslenskur ríkisborgari, ber stjórn TFÍ að mæla með því við ráðherra, að umsækjandi fái rétt til að kalla sig tæknifræðing.
Ef umsögn Menntunarnefndar er neikvæð, ber stjórn að mæla gegn því, að umsækjandi fái leyfi ráðherra til að kalla sig tæknifræðing nema í algjörum undantekningartilvikum, eins og ef viðkomandi getur ekki aflað tilskilinna gagna vegna styrjalda eða af stjórnmálalegum ástæðum. Í slíkum tilfellum þarf stjórn að samþykkja meðmæli til ráðherra samhljóða.

8. grein

Framkvæmdastjóri TFÍ tilkynnir umsækjanda og/eða iðnaðarráðuneyti hverja afgreiðslu umsóknin hefur hlotið.

9. grein

Reglur þessar hlutu staðfestingu aðalfundar TFÍ þann 1.mars 1995.

Reglur þessar voru endurskoðaðar af Menntunarnefnd TFÍ á árinu 2014 og staðfestar af stjórn TFÍ sama ár.